Þessi grein birtist í hverfisblaðinu, Laugardalur, Háaleiti & Bústaðir 6.tölublað 2013

Verslunin Glóey 40 ára
Í versluninni Glóey í Ármúlanum fæst næstum allt fyrir rafmagnið. Þar má fá ýmis konar lampa, garðljós og útiljós. Einnig ljósaperur í miklu úrvali, hreyfiskynjara, ljósnema, tímarofa, fjöltengi, dyrabjöllur, netkapla, tausnúrur, spennubreyta, borðviftur, baðviftur, hitablásara og fleiri minni heimilistæki. Þar er líka fjölbreytt úrval raflagnaefnis og efni ef þú vilt hanna og smíða þinn eigin lampa og fleira sem of langt mál er upp að telja. Við hittum Hauk Hannesson framkvæmdastjóri og byrjuðum á að spyrja hann um sögu fyrirtækisins. 
Glóey var stofnuð 1973, segir Haukur, og er því 40 ára en fjölskylda mín tók við fyrirtækinu 1987. Verslunin byrjaði í Bolholtinu en flutti um 1982 í Ármúlann, fyrst á númer 28 en síðan í númer 19 þar sem verslunin er núna. Þetta er fjölskyldufyrirtæki, pabbi var hérna en er hættur því hann er orðinn það fullorðinn og móðir mín vann hérna líka en hún er dáin. Við erum hérna systkinin, en auk mín eru það Ómar og Baldur, Elín hefur verið hérna en hún býr í Kanada í augnablikinu og svo sér Bryndís um skrifstofuna. Svo hafa börnin og barnabörnin unnið hérna líka þegar mikið liggur við.

Og hver er svo ykkar sérstaða?

Við sérhæfum okkur í raflagnaefni, rafhlöðum og ljósaperum en við erum með á annað þúsund gerðir af perum, segir Haukur og eigum flest allar rafhlöður sem eru í gangi. Svo erum við með lampa og ljós og ýmis minni raftæki.

Á að gera eitthvað sérstakt í tilefni af afmælinu?

Já við verðum með útiljós á tilboði í byrjun september og ætlum að gefa 40% prósent afslátt af þeim í tilefni af 40 ára afmælinu. En ég veit ekki hvað við gerum þegar við verðum 100 ára, bætir Haukur við og brosir, en þetta er auðvitað mest til gamans gert. Svo ætlum við að vera með smánámskeið í að búa til ljós. Við ætlum að kenna fólki hvernig á að tengja og ganga frá hlutunum.

Er sú kunnátta ekki á undanhaldi því margt í rafmagnstækjum er einnota nú á dögum?

Jú það hefur margt breyst en við ætlum að vera með kennslu í þessu og á Facebook síðunni okkar sýnum við hvernig á að ganga frá hlutunum. Það er hægt að gera ýmislegt frumlegt eins og við erum með hérna í búðinni til sýnis eins og lampa úr sultukrukkum og ljósakrónu úr ostabakka. Þessar silkisnúrur sem við erum með eru mikið inni núna og ég held að við séum með einar 20 gerðir. Það eru margir að búa til sín eigin ljós núna og t.d. keyptu þeir mikið af okkur í Tryggvaskála á Selfossi og ýmsir aðrir veitingastaðir hafa gert það sama.

Þannig að ef maður vill endurnýta raftæki eða búa til sitt eigið ljós eða lampa þá er Glóey staðurinn til að finna efni og varahluti.

(blaðamaður Benóný Ægisson)

 

Þessi grein birtist í tímaritinu Hugvit & hönnun 10.nóvember 2012:

(Texti: Sigrún Pétursdóttir)

Strákarnir í Glóey þeir Haukur og Baldur eru sannarlega með hlutina á hreinu
þegar kemur að bæði hönnun og hugviti. Auk fagurlagaðra ljósapera líkt og
Edisonperuna eiga þeir í fórum sínum litríkar tausnúrur sem eru það allra
vinsælasta í dag samkvæmt evrópskum hönnuðum. Tausnúrurnar hreyfa við
hönnuðum hversdagsins líka en auk þeirra býður Glóey upp á úrval af
lampasnúrum, klóm, snúrurofum, snúrudimmum, fatningum og skermahöldum. Allt
fyrir þá sem hafa löngun til að hanna og smíða sinn eigin lampa.
Ýmis konar minni heimilistæki, viftur, lampar, stækkunarglerslamparnir sem
seljast nánast alltaf upp um leið og þeir koma, hreyfiskynjarar, fjarstýrðir
dimmerar, dyrabjöllur og rafhlöður í allt mögulegt er aðeins brot af því sem
er á boðstólum hjá verslunnini Glóey. Einnig er þar að finna eitt stærsta
úrval spennubreyta og breytiklóa, fjöltengja og millistykkja  á landinu og
ættu ferðalangar að geta notið góðs af.  Í versluninni er svo yfirleitt
rafvirki sem veitir faglegar ráðleggingar.
Það hefur komist í venju að aðrar verslanir vísi á Glóey, „Ef það fæst ekki
hjá okkur, farðu þá í Glóey“ mætti segja að væri orðið að orðatiltæki hjá
samkeppnisaðilunum. Þeir bræður flytja inn vörur sínar að stórum hluta
sjálfir frá Evrópu og Ameríku og skipta þá við tíu til tólf mismunandi
framleiðendur á meðan margar verslanir skipta aðeins við einn.
Nú eru jólin skammt undan og því komu fyrstu jólaljósin í hús í vikunni. Ný
gerð útipera í jólaskreytingar er komin á markaðinn sem endast tí til
þrítugfalt lengur en venjulegar perur og kosta ekki nema helmingi meira.
„Þær mætti svo sjálfsagt nota sem golfbolta eftir jólin“ segir Haukur
stríðnislega um leið og hann fleygir einni jólaperunni í gólfið - enda LED
pera og því úr nánast óbrjótanlegu efni. Perurnar fást í gulum og rauðum
litum sem eru þeir litir sem seljast hvað mest. Fjarstýrða tengla er svo
vert að nefna sem gleðigjafa, bæði yfir jólin og hversdags.   Glóey selur
saman í pakka þrjár innstungur og fjarstýringu sem slekkur þau ljós sem
stungið er í samband.  Þannig er hægt að setja jólatrésseríu  í eina
innstunguna, aðventuljós í aðra, svo etv. gluggaskreytingu í þá þriðju – og
stjórna þeim  með fjarstýringunni.

Verslunin Glóey í Ármúlanum hefur sinnt viðskiptavinum sínum af alúð í
bráðum 40 ár og má svo sannarlega segja að eigendurnir séu sérfræðingar í
því að lýsa upp skammdegið.


© Raftćkjaverslunin Glóey - Glóey ehf • Ármúla 19 • 108 Reykjavík • sími: 568-1620